25.11.2014 19:30

Þriðjudagur 25. 11. 14

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu, kynnti þá reglu að aðstoðarmenn ráðherra geti einungis óskað eftir gögnum sem varða pólitísk störf ráðherra eða stefnumótun. Friðrika Benónýsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, segir af þessu tilefni í leiðara blaðsins í dag að það sé „innantómt froðusnakk og píslarvættisvæl“ hjá Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að bera fyrir sig að sér hafi verið skylt að verða við tilmælum aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánasdóttur um gögn varðandi Tony Omos hælisleitanda.

Leiðari Friðriku einkennist af stóryrðum og fordómum. Engu er líkara en stefna Fréttablaðsins sé að leiðarar skuli skrifaðir án þess að sjálfstætt mat sé lagt á sannleiksgildi fullyrðinga sem við er stuðst til að draga þá ályktun sem fellur að ofstækisfullri afstöðu hverju sinni.

Skilgreining Ragnhildar Hjaltadóttur á störfum umboðsmanns er nýmæli. Hvar hefur sú regla verið mótuð eða birt sem hún lýsir?

Ómar H. Kristmundsson er prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Árið 2005 birti hann grein í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla sem ber heitið: Bakgrunnur aðstoðarmanna ráðherra og má lesa hana hér.

Ómar segir ekki allt ljóst varðandi skipulagslega stöðu aðstoðarmanns ráðherra og um hana geti skapast ágreiningur, fyrst og fremst varðandi verkaskiptingu aðstoðarmanns og ráðuneytisstjóra, til dæmis ef aðstoðarmaður beini erindum til undirmanna ráðuneytisstjóra án hans vitundar, komi fram fyrir hönd ráðuneytis fremur en ráðuneytisstjóri og aðstoðarmaður komist í þá stöðu að vera eins konar milliliður ráðherra og embættismanna.

Af greininni má ráða af stöðu aðstoðarmanns sem sérstaks trúnaðarmanns ráðherra geti hvorki ráðuneytisstjóri né aðrir starfsmenn ráðuneyta sagt honum fyrir verkum.  Þeim sé hins vegar skylt að láta honum í té gögn og upplýsingar, sem hann þarf á að halda til þess að geta unnið þau störf, sem ráðherra felur honum.

Hefði leiðarahöfundur Fréttablaðsins gefið sér tóm til að kynna sér málavöxtu áður en tekið var til við að kasta rýrð á lögreglustjóra fyrir að bregðast við tilmælum aðstoðarmanns vegna máls sem lögreglustjórinn mátti ætla að væri til meðferðar hjá ráðherra hefði málatilbúnaðurinn kannski orðið annar. Þarna helgaði tilgangurinn hins vegar meðalið. Ætlunin er að vega að lögreglustjórnum og heiðri Sigríðar Bjarkar.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur einnig hoggið í þennan sama knérunn, til dæmis gerði Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður það í hádeginu í dag raunar með tilvísun í Fréttablaðið.

ps

í upphaflegri útgáfu var ályktun mín birt sem bein tilvitnun í grein Ómars og er beðist velvirðingar á þeim mistökum.