22.10.2014 20:30

Miðvikudagur 22. 10. 14

Í dag ræddi ég við Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, í þætti mínum á ÍNN. Kaffitár var stofnað fyrir 24 árum og hefur áunnið sér góðan sess á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur rekið tvær kaffistofur í flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) á Keflavíkurflugvelli en hefur nú verið gert að loka þeim án þess að fylgt hafi verið viðunandi leikreglum að mati Aðalheiðar.

ISAVIA er rekstraraðili Keflavíkurflugvallar og annarra flugvalla í landinu og reksturinn í FLE er undir handarjaðri ISAVIA, opinbers hlutafélags. Hið einkennilega við ákvarðanir um nýja leigutaka í FLE er leyndarhyggjan sem einkennir viðhorf stjórnenda ISAVIA. Lýsingar á henni minna mig á viðhorf stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur fyrir einum áratug.

Vegna þess hve stjórnendur opinberra fyrirtækja hafa verið tregir til að skýra frá einstökum þáttum varðandi rekstur þeirra var lögum breytt fyrir fáeinum árum til að auka upplýsingaskyldu þeirra. ISAVIA vildi þá sérstöðu sem ekki var samþykkt. Nú neitar fyrirtækið að upplýsa þá sem vildu fá að starfa í FLE og ætlar ekki að verða að óskum þeirra nema hæstiréttur gefi fyrirmæli um það.

Þátturinn með Aðalheiði verður næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN sem sýndur var í síðustu viku þar sem ég ræddi við Árna Larsson skáld.