20.10.2014 19:15

Mánudagur 20. 10. 14

Margar kenningar eru um hvers vegna eitthvað sé á sveimi í sænska skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. Sænsk yfirvöld leita þar að einhverju neðansjávar, flestir telja að um rússneskan kafbát sé að ræða. Hafi Rússar ákveðið að ögra Svíum á þennan hátt svo skömmu eftir að ný ríkisstjórn vinstri flokkanna var mynduð í landinu má ætla að þeir vilji reyna á þolrif hennar og sjá hvernig hún bregst við vegna þess sem líkja má við pólitískt/hernaðarlegt hættuástand.

Á Evrópuvaktinni er birt viðtal (sjá hér) við sænskan herfræðing, Peter Mattsson, sem bendir á að þessum kafbáti sé ekki beint gegn hernaðarlegu skotmarki heldur borgaralegu og pólitísku. Það sé í samræmi við stefnu í hermálum sem rússnesk stjórnvöld hafi mótað síðan 2008.

Stefnan sé meðal annars reist á að nýta allar leiðir til að koma alls kyns upplýsingum á framfæri í gegnum hraðvirka netmiðla til að skilgreina viðbrögð við þeim. Netmiðlar leggi meiri áherslu á tafarlausa birtingu en ígrundun og könnun heimilda. Fréttin sem barst frá Rússlandi í dag um að Hollendingar ættu kafbát í felum í sænska skerjagarðinum er dæmi um nýtingu á fjölmiðlum til að rugla fólk í ríminu.

Dramatískust er sú skoðun annars herfræðings í Svíþjóð, Finnans Tomasar Ries, að sé kafbáturinn rússneskur og komist hann ekki undan sænska hernum bíði aðeins dauðinn áhafnarinnar, henni beri að sökkva eða sprengja kafbátinn til að hann hafni ekki í höndum Svía.

Furðulegust er kenningin um að með því að senda kafbátinn vilji Rússar ögra Svíum á þann veg að þeir þori ekki að halda áfram vangaveltum um aðild að NATO. Auðveldara er að rökstyðja að einmitt grár leikur af þessu tagi auki fylgi við NATO-aðild Svía. Í krafti hennar gætu þeir kallað bandamenn til samstarfs við sig í leitinni að kafbátnum.

Frá Danmörku og Noregi berast fréttir um að þar í landi ráði menn ekki yfir sambærilegum búnaði og Svíar eiga til kafbátaleitar. Danir hafi raunar afskrifað þátttöku sína í öllum kafbátahernaði með því að leggja sínum kafbátum fyrir fullt og allt.

Norðmenn eiga sex kafbáta og hafa mikla reynslu í leit af kafbátum í norskum fjörðum á tíma kalda stríðsins. Á árunum 1960 til 1994 eru skráð 154 tilvik aðeins í Norður-Noregi þar sem talið var að ókunnir kafbátar væru á ferð. Það tókst aldrei að slá því föstu hvaðan þeir komu. Undanfarin ár hafa norskar F-16 orrustuþotur flogið um 40 sinnum ár hvert í veg fyrir rússneskar hervélar.