19.9.2014 18:50

Föstudagur 19. 09. 14

Skotar ákváðu að verða áfram í Sameinaða konungdæminu í atkvæðagreiðslunni í gær. Ég spáði þessu í fimmtu grein minni um kosningarnar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hinn þögli meirihluti vildi ekki breytingu. Bretland mun engu að síður breytast. Á morgun birtist lokagrein mín um kosningarnar í blaðinu.

Það hefur verið ánægjuleg reynsla að vera svona nálægt þessum sögulegu kosningum í Skotlandi og fá tækifæri til að rifja upp störf blaðamannsins. Gjörbylting hefur orðið í þessum störfum með innleiðingu byltingarinnar með upplýsingatækninni. Það er eins og að bera saman dag og nótt að safna efni og koma því frá sér nú á tímum miðað við það sem áður var.

Ég hef fylgst með sjónvarpsstöðinni BBC News og dáist að framsetningu hennar á þessum stórviðburði og samskiptum fréttamanna og stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn gefa yfirlýsingar sínar án þess að vera síðan hundeltir af fréttamönnum með hljóðnemana á lofti. Þeir svara spurningum á blaðamannafundum eða koma í undirbúin viðtöl.

Reynslumiklir fréttamenn BBC tala síðan beint til áhorfenda og draga heildarmynd af því gerst hefur. Þá hefur Brian Cox leikari verið viðmælandi BBC fyrir hönd já-manna í Edinborg í allan dag. Hann er frá Dundee, einu af fjórum kjördæmum af 32 þar sem já-menn sigruðu í gær og hagar orðum sínum á þann veg að rói skoðanasystkini sín. Hann telur að Alex Salmond segi af sér sem forsætisráðherra Skotlands og leiðtogi þjóðernissinna til að leiða samningaviðræður við ráðamenn í Westminster í London um meiri heimastjórn Skota.

Hjá BBC hefur örugglega verið efnt til sérstaks fundar og jafnvel æfingar með öllum lykilfréttamönnum um hver umgjörð frásagna þeirra yrði, sérstaklega hefðu Skotar slitið tengslin við Sameinaða konungdæmið. Þeir yrðu að gæta þess að láta ekki eigin tilfinngar ná tökum á sér!