14.9.2014 21:55

Sunnudagur 14. 09. 14

Í kosningum fyrir fjórum árum fengu sænskir jafnaðarmenn verstu útreið sem þeir höfðu nokkru sinni fengið nú bæta þeir fylgi sitt aðeins um 0,4 stig og er spáð 31,2% í þingkosningunum í dag. Versta útreið frá Moderatarnir, mið-hægriflokkurinn undir forystu Fredriks Reinfeldts forsætisráðherra. Flokkurinn tapar 6,8 prósentustigum og fellur í 23,1% megi marka tölur á þessu stigi talningar. Reinfeldt hefur sagt af sér sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi. Sigurvegarar sænsku kosninganna eru Svíþjóðarlýðræðissinnar sem bæta við sig 4,8 stigum og fá 13%.

Í dag var kosið til landsþinga í Potsdam í Brandenburg og í Erfurt í Thüringen – bæði sambandslöndin voru áður í Austur-Þýskalandi. Jafnaðarmenn hafa haft stjórnarforystu í Brandenburg í aldarfjórðung og gera áfram að loknum kosningunum núna. Kristilegir demókratar hafa jafnlengi haft forystu í Thüringen en nokkur óvissa ríkir um hvað gerist nú því að jafnaðarmenn hafa tækifæri til að mynda meirihluta til vinstri í landinu í stað þess að starfa áfram með kristilegum.

Sigurvegari kosninganna í þýsku sambandslöndunum var flokkurinn sem stofnaður var á síðasta ári Alternative für Deutschland (AfD). Flokkurinn fékk þingmenn kjörna í Saxlandi fyrir tveimur vikum (tæp 10% atkvæða), í fyrsta sinn í landsþingskosningum. Nú fékk hann 12% í Brandenburg og 10% í Thüringen.

Sigurvegarar í Svíþjóð og þýsku sambandslöndunum eiga sameiginlegt að hafa horn í síðu Evrópusambandsins og þó sérstaklega stefnunnar innan sambandsins í málefnum innflytjenda og hælisleitenda en flestir þeirra sækja annaðhvort um hæli í Svíþjóð eða Þýskalandi. Vegna þessa hefur AfD-flokkurinn tekið til við að ræða meira um vandræði vegna hælisleitenda en evruna.

Ráðist var á sigurvegarana í Svíþjóð með slagorðum eins og þessum: Feminismi er betri en rasismi. Feminsta-flokkurinn í Svíþjóð komst hins vegar ekki yfir 4% þröskuldinn inn í sænska þingið.

Víst er að allt hefur þetta áhrif innan Evrópusambandsins. Þau birtast meðal í ákvörðuninni um að það stækki ekki frekar næstu fimm árin heldur einbeiti embættismannaveldið sér að tiltekt á heimavelli.