25.7.2014 23:10

Föstudagur 25. 07. 14

Reykholtshátið hófst í kvöld með tónleikum í Reykholtskirkju.

Í dag var Vilhjálmur Hjálmarsson jarðsunginn. Hann átt skammt í að verða 100 ára þegar andaðist. Vilhjálmur er lifði lengst af ráðherrunum í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar sem sat 1974 til 1978, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eins og sú sem nú situr. Á þessum árum starfaði ég í forsætisráðuneytinu og ritaði með öðrum störfum fundargerðir ríkisstjórnarinnar.

Birta er yfir minningunni um Vilhjálm enda var hann velviljaður maður sem vildi allan vanda leysa á friðsaman hátt.

Það urðu nokkur viðbrigði fyrir gesti og starfsmenn menntamálaráðuneytisins að fá mann í ráðherrastöðu sem bauð aðeins kaffi og kökur í síðdegisboðum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í stað létts víns og/eða sterkra drykkja eins og tíðkuðust almennt í slíkum veislum.

Ráðherraboð af þessu tagi voru miklu algengari þá en nú og oft fylgdi töluverður þrýstingur á ráðherra að halda þau, einkum menntamálaráðherra vegna alls þess fjölda stofnana og félaga sem falla undir verksvið ráðuneytisins. Fyrir tíð bjórsins og allra kránna voru drykkjusiðir aðrir en nú og það þótti einfalda margt að ríkið sæi um vínveitingarnar. Kostnaður ríkisins var minni við að bjóða áfengi en kaffi enda fengu ráðuneyti varning ÁTVR á gjafverði. Á þessum árum lágu sígarettur og vindlar á öllum borðum – menn reyktu í veislum og á ríkisstjórnarfundum.

Þrýstingur á veislur í boði menntamálaráðherra minnkaði í tíð Vilhjálms.