24.4.2014 20:00

Fimmtudagur 24. 04. 14

Gleðilegt sumar!

Hér var fullyrt mánudaginn 21. apríl að Guðni Ágústsson, fyrrv. ráðherra, mundi leiða lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor. Ályktunin var reist á kynningu á vinnunni við undirbúning hins nýja lista og tilkynningu um að hann yrði kynntur í dag, sumardaginn fyrsta.

Dagurinn leið án þess að framsóknarmenn kynntu lista sinn. Þess í stað sendi Guðni frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla um að hann yrði ekki í framboði. Hún hefst á þessum orðum: „Að vel hugsuðu máli þá hef ég tekið ákvörðun í samráði við fjölskyldu mína að gefa ekki kost á mér til að leiða lista framsóknarmanna í Reykjavík.“

Guðni skýrði framsóknarmönnum í Reykjavík frá þessari ákvörðun að kvöldi síðasta vetrardags. Upphafsorðin í yfirlýsingunni segja allt sem þarf, fjölskylda Guðna hefur einfaldlega lagst gegn því að hann færi að nýju í pólitíska slaginn.

Í netheimum hafa menn gefið þá skýringu að þeim sem standa Guðna næst hafi þótt nóg um skítkastið sem hann fékk á vefsíðum og samfélagssíðum. Auk þess er augljóst að í hinum fámenna hópi framsóknarmanna í Reykjavík var enginn einhugur um Guðna. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, verkfræðingur og sjúkraliði, sem skipar annað sætið á listanum í Reykjavík talaði í raun niður til Guðna frá því að fréttist af hugsanlegu framboði hans og taldi auk þess freklega fram hjá sér gengið.