7.10.2013 22:30

Mánudagur 07. 10. 13

Síðdegis efni RNH til málþings í tilefni af fimm ára afmæli hrunsins, þar flutti Ásgeir Jónsson hagfræðingur ræðu meðal annarra. Hann var ómyrkur í máli um stefnu og störf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, henni hefði mistekist stjórn efnahagsmála í skjóli hafta. Réttar ákvarðanir hefðu verið teknar fyrir réttum fimm árum en eftir að ný stjórn kom til sögunnar 1. febrúar 2009 hefði hallað undir fæti.

Ásgeir efaðist um að rétt hefði verið að innleiða höftin haustið 2008 miðað við eftirleikinn og hve illa hefði gengið að losna við þau. Vond áhrif þeirra mögnuðust aðeins. Þá hefði verið rangt hjá ríkisstjórn Jóhönnu að afhenda Arion og Íslandsbanka kröfuhöfum, allur hagnaður af rekstri bankanna rynni til þeirra en nýttist ekki landsmönnum. Einnig hefði verið haldið ranglega á málum við töku ákvarðana um eignarhald ríkisins á Landsbanka Íslands.

Þetta er harður dómur, ekki síst yfir Steingrími J. Sigfússyni. Hann kemur hins vegar heim og saman við það sem sagt var frá í greininni í The Guardian um að kröfuhafarnir söknuðu Steingríms J. úr ráðherraembætti.