28.5.2013 22:10

Þriðjudagur 28. 05. 13

Gagnrýni á svonefnda stjórnsýsluúttekt á sviði fornleifarannsókna og fornleifaverndar árin 1990 til 2010 kemur ekki á óvart. Þar er vikið að rannsóknum Fornleifastofnunar Íslands á Þingvöllum og bréfi sem hún ritaði til Þingvallanefndar og nefndin svaraði.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur kallað eftir athugasemdum við skýrsluna og sendi ráðuneytinu bréf í dag með athugasemdum mínum þar sem ég sagði:

„Þingvallanefnd var ekki aðili að neinum deilum vegna fornleifarannsókna á Þingvöllum. Nefndinni bar lögum samkvæmt að taka afstöðu til bréfs Fornleifastofnunar Íslands og gerði það […] 10. júní 2005. Nefndin lýsti ekki öðru en afstöðu sinni. Hún fór ekki inn á verksvið annarra með því.

Að afgreiðsla Þingvallanefndar hafi verið brot á þjóðminjalögum er hrapallegur misskilningur og alvarlegur í skýrslu sem kynnt er sem stjórnsýsluúttekt. Að fullyrða að Þingvallanefnd hafi tekið sér vald umfram lög er á færi dómara en ekki skýrsluhöfundar. Slíka ásökun ber ekki að kynna í opinberri skýrslu á vegum ráðuneytis án þess að allir aðilar máls fái tækifæri til að lýsa afstöðu sinni fyrir birtingu. Í slíku stjórnsýsluferli hefði verið unnt að upplýsa höfund um lagaskyldur Þingvallanefndar.

Rétt er að geta þess að Þingvallanefnd átti beina aðild að öllum undirbúningi vegna skráningarinnar á heimsminjaskrá UNESCO. Nefndin tók ákvarðanir sínar með tilliti þess ferlis og samtala við erlenda sérfræðinga sem að málinu komu.

Engin skýring er gefin í skýrslunni á að tíunduð sé sú staðreynd að formaður Þingvallanefndar gegndi ráðherraembætti.

Þegar texti skýrslunnar er lesinn kemur í ljós að ummælin um Þingvallanefnd eiga í raun ekkert erindi í hana. Fornleifavernd og fornleifanefnd áttu síðasta orð í þessu máli varðandi fornleifaþáttinn eins og lýst er í skýrslunni. Þingvallanefnd gerði ekki annað en svara erindi sem henni barst og er það ekki í frásögur færandi.“