22.11.2012 22:20

Fimmtudagur 22. 11. 12

Aðalfundur Varðbergs var haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns í dag og var stjórn félagsins endurkjörin. Ég flutti skýrslu stjórnar og má lesa hana hér.

Morgunblaðið birtir í dag frétt um að Gunnar Þ. Andersen, fyrrv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi kært „alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson, Ágústu Johnson, eiginkonu Guðlaugs, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til embættis sérstaks saksóknara. Kæran lýtur að meintum brotum á lögum um mútur og umboðssvik og hlutdeild í málum tengdum Bogmanninum, félagi í eigu Guðlaugs Þórs og Ágústu,“ segir í blaðinu.

Guðlaugur Þór segir „ekkert athugavert við þessi viðskipti sem voru fyrir áratug og menn mega skoða það eins og þeir vilja“. Þingmaðurinn segir kæruna þátt „í leikriti Gunnars Andersen og Inga Freys [blaðamanns] á DV“ og hann „efast ekki um að þeir verða örugglega fleiri“ leikþættirnir.

Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs setja fréttir af einvígi Gunnars Þ. og Guðlaugs Þórs í samband við prófkjör sjálfstæðismanna  í Reykjavík nk. laugardag þar sem Guðlaugur Þór sækist eftir 2. sæti. Halldór Jónsson í Kópavogi, eindreginn stuðningsmaður Guðlaugs Þórs, segir á vefsíðu sinni í dag:

„Auðvitað skaðar þetta Guðlaug Þór í prófkjörinu, þar sem einhverjir kjósa hann ekki vegna þessa máls sem annars hefðu kosið hann og kjósa þar með aðra. Forstjórinn og DV geta vel við unað. Spurningin er hversu mikinn skaða Guðlaugur ber af þessu máli hvað sem svo líður útkomu þess í fyllingu tímans. Sýkna eða sakfelling breytir þar engu um og skiptir ekki máli, því skaðinn er skeður. Fáir munu taka eftir málalyktum þegar þær verða.“

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi við HR, segir Gunnar Þ. í  „ófrægingarherferð gegn Guðlaugi Þór og eiginkonu hans. Svo virðist sem siðferðisbrestur Gunnars Þ. Andersen sé algjör,“ segir Björn Jón.

Prófkjör bindur ekki enda á þetta mál. Hætta er á að því verði að ósekju klínt á Sjálfstæðisflokkinn.  Hér er meira í húfi en hagsmunir eins frambjóðanda þótt alls ekki beri að gera lítið úr þeim.  Málum af þessu tagi ber að ljúka fyrir dómstólum en ekki á pólitískum vettvangi.